Icelandair Cargo býður upp á flutning á eigin fragtvélum og í farþegavélum Icelandair. Flutningsgetan er 2.200 tonn og flogið er til 30 áfangastaða á viku. Eru vikulegar brottfarir um 190 frá Íslandi í sumar. Þetta eru fleiri áfangastaðir en félagið hefur nokkru sinni boðið áður.

Uppistaðan í flutningum félagsins frá Íslandi er ferskur fiskur og lifandi hestar. Til Íslands flytur Icelandair Cargo helst ferskar vörur, t.d. grænmeti og ávexti, en einnig tölvur, varahluti, lyf og tískuvörur. Þá flytur félagið mikið af humri frá N-Ameríku til Evrópu auk varnings frá Evrópu til N-Ameríku.

„Við erum stolt af því að geta boðið viðskiptavinum okkar upp á svo fjölbreytt framboð af áfangastöðum í beinu fragtflugi og flutningsgetu upp á 2.200 tonn á viku hverri. Við tengjum Ísland við alla mikilvægustu markaði fyrirtækja landsins hvort sem á við inn eða útflutning, með upp allt að 20 ferðum á suma þeirra á viku beggja vegna Atlantshafsins. Þessi þjónusta er afar mikilvæg fyrir okkar viðskiptavini sem geta nálgast markaði sína á skemmri tíma með flutninganeti okkar en þekkist á okkar markaði. Við flytjum t.d. mikið af ferskum fiski frá Íslandi og þar gildir skammur flutningstími til að hámarka verðmæti og gæði vörunnar,“ segir Gunnar Már Sigurfinnsson framkvæmdastjóri Icelandair Cargo í tilkynningu frá félaginu.