*

föstudagur, 24. september 2021
Erlent 27. júlí 2021 07:06

Met í hagnaði og sölu hjá Tesla

Tesla skilaði hagnaði í fyrsta sinn ef kolefnisheimildir eru teknar úr jöfnunni.

Ritstjórn
Tesla gjaldfærði 176 milljónir dala þar sem auknar líkur eru á að fyrirtækið þurfi að greiða Elon Musk umbun fyrir að ná frammistöðumarkmiðum.
epa

Tesla skilaði 1,1 milljarðs dala hagnaði, jafnvirði 139 milljörðum króna, á öðrum ársfjórðungi en það er í fyrsta sinn í sögu rafbílaframleiðandans sem afkoman er yfir milljarði dala. 

Sala fyrirtækisins tvöfaldaðist frá öðrum ársfjórðungi 2020, þegar verksmiðja Tesla í Bandaríkjunum var lokuð tímabundið, og nam 12 milljörðum dala. Fyrirtækið afhenti yfir 200 þúsund bíla á öðrum fjórðungi 2020 sem er annað met.

Tekjur af sölu á svokölluðum kolefnisheimildum (e. regulatory credits) til annarra bílaframleiðanda námu 354 milljónum dala á fjórðungnum. Þetta er fyrsta fjárhagstímabilið sem Tesla skilar hagnaði þegar tekjur af þessum heimildum eru teknar úr myndinni.  

Í fjárfestakynningu Tesla segir að skortur á örgjörvum hafi verið vandamál á tímabilinu og kunni að hafa áhrif á fjölda bíla sem verða afhentir síðar á árinu. Fram kemur að eftirspurn í Evrópu sé vel yfir framboði sem hefur leitt til aukins biðtíma. 

„Afstaða og stuðningur almennings við rafbíla virðist vera á áður óséðum vendipunkti,“ segir í kynningunni. „Við munum áfram leggja hart að okkur að keyra niður kostnað og auka framleiðslugetu til að gera rafbíla aðgengilega fyrir eins mikið af fólki og mögulegt er.“

Tesla færði niður bókfært virði Bitcoin eignar sinnar um 23 milljónir dala, eða um 2,9 milljarða króna, en gengi rafmyntarinnar lækkaði skarpt í apríl síðastliðnum. Elon Musk, stofnandi og forstjóri Tesla, tilkynnti í maí síðastliðnum að fyrirtækið myndi hætta að taka við rafmyntinni sem greiðslumáta vegna kolefnisspors hennar. Hann sagði hins vegar í síðustu viku að rafbílaframleiðandinni myndi „mjög líklega“ byrja að taka aftur við henni sem greiðslu fyrir rafbíla.