Metið hefur verið slegið í sjóðfélagalánum lífeyrissjóðanna nú í október. En útlánin í október á þessu ári voru fjórfalt meiri en í október í fyrra og yfir 70 milljarðir hafa verið lánaðir út í ár. Lífeyrissjóðir hafa jafnframt aldrei lánað sjóðfélögum sínum jafn háar upphæðir í einum mánuði og í október. Viðskiptamogginn gerir málið að umfjöllunarefni sínu.

Heildarútflæði úr sjóðunum í formi nýrra sjóðfélagalána var tæplega 8,6 milljarðar í október og er það 90 milljónum króna hærri upphæð en sjóðirnir lánuðu út í ágúst, en þá var einnig sett nýtt met í sjóðfélagalánum.

Fjórföldun í sjóðfélagalánum milli ára

Ef að útlánatölur eru bornar saman við árið í fyrra kemur í ljós að útlánin í október á þessu ári eru ríflega fjórfalt meiri en í október í fyrra. Þá námu þau rúmum tveimur milljörðum króna.

Heildarútlán á fyrstu 10 mánuðum ársins í fyrra nam 15 milljörðum króna en á þessu ári hafa yfir 70 milljarðar verið lánað út. En það er vel ríflega fjórföldun milli tímabilanna tveggja.

Leitað er skýringa á þessari miklu aukningu í Peningamálum Seðlabanka Íslands en þar er tekið fram að: „Útlán lífeyrissjóða til heimila hafa aukist töluvert undanfarið í kjölfar þess að margir sjóðir rýmkuðu lántökuskilyrði, fjölguðu lánakostum og buðu betri vaxtakjör en sambærileg lán viðskiptabanka.“