Fluttar voru út eldisafurðir fyrir 5,5 milljarða króna í mars, sem er það langmesta í einum mánuði að því er fram kemur í samantekt SFS byggt á nýbirtum tölum Hagstofunnar um vöruskiptajöfnuð.

Um er að ræða tvöföldun á föstu gengi frá því í mars í fyrra. Alls námu eldisafurðir 9% af vöruútflutningi Íslendinga í mars og hefur það hlutfall aldrei verið hærra.

Á fyrsta ársfjórðungi nam útflutningsverðmæti eldisafurða rúmlega 11,5 milljörðum króna, sem er um 31% aukning miðað við sama tímabil í fyrra á föstu gengi og það mesta á einum fjórðungi frá upphafi.