Laun starfsmanna sveitarfélaga að hækkuðu að meðaltali um 9,4% á milli ára samanborið við 7,1% á vinnumarkaði í heild.
Slæm staða sveitarfélaga undanfarin ár endurspeglast ágætlega í þeirri staðreynd að frá og með árinu 2007 hafa tekjurnar aukist um 6% reiknað á verðlagi ársins 2015. Á sama tímabili hafa gjöld aukist um 17%.

Launakostnaður er stærsti útgjaldaliður sveitarsjóða. Í fyrra nam hann 136,6 milljörðum króna, sem er 54% af heildartekjum allra sveitarsjóða en þær námu 255,1 milljarði.  Frá árinu 2002 hefur þetta hlutfall aldrei verið jafn hátt. Á milli áranna 2014 og 2015 hækkuðu laun starfsmanna sveitarfélaga að meðaltali um 9,4%, samanborið við 7,1% á vinnumarkaði í heild.

Langmest í fræðslu- og uppeldismál

Þegar helstu málaflokkar sveitarfélaga eru skoðaðir fer langmest fé í fræðslu- og uppeldismál. Alls fóru 127,4 milljarðar króna í þennan málaflokk í fyrra, þar af nam launakostnaður þeirra sem starfa við málaflokkinn 80,1 milljarði. Reiknað á verðlagi ársins 2015 fóru 117,5 milljarðar króna í málaflokkinn árið 2014. Útgjöld til þessa málaflokks jukust því um 8% milli ára. Breyting lífeyrisskuldbindinga nam 19,9 milljörðum í fyrra samanborið við 7,9 árið 2014, sem er 151% aukning milli ára. Að langmestu leyti má rekja breytingu lífeyrisskuldbindinga til Reykjavíkurborgar en af 19,9 milljörðum voru 14,6 hjá borginni.

Af ríflega 20.800 starfsmönnum (stöðugildum) sveitarfélaga eru 6.900 í Kennarasambandi Íslands. Þetta þýðir að 33% starfsmanna sveitarfélaga eru í Kennarasambandinu. Nú eru blikur á lofti í kjaramálum kennara. Á þessu ári hafa þeir í tvígang fellt kjarasamninga en í kjölfar ákvörðunar kjararáðs um að hækka laun ráðamanna um tugi prósenta hefur óánægja kennara aukist. Í byrjun vikunnar settust samninganefndir kennara og sveitarfélaga til fundar í Karphúsinu. Að framansögðu er ljóst að niðurstaðan mun hafa töluverð áhrif á fjárhag sveitarfélaganna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .