Fyrirtæki í Evrópu, önnur en fjármálafyrirtæki, hafa nú, þegar nær fimm mánuðir eru eftir af árinu, gefið út meira af skuldabréfum en nokkru sinni fyrr á heilu ári. Framboð á skuldabréfum af fjárfestingarstigi sem gefin eru út af öðrum fyrirtækjum en fjármálafyrirtækjum er komið í 200,8 milljarða evra á þessu ári. Fyrra met féll árið 2001, en þá voru gefin út skuldabréf fyrir 200,1 milljarð evra allt árið, að því er segir í frétt WSJ.

Þegar fjármálakreppan stóð sem hæst tóku bankalán við sem fjármögnunarleið þegar markaðir þornuðu upp, en nú hafa skuldabréfamarkaðir braggast á ný svo um munar. Bankar hafa dregið úr útlánum til að treysta fjárhagsstöðu sína, en í staðinn hafa skuldabréfamarkaðir lifnað við, segir WSJ.