Tæplega 10.000 hlauparar voru skráðir í Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka þegar forskráningu lauk á miðvikudag. Þetta er um 30% aukning milli ára. Búast má við að skráningartölur hækki töluvert eftir daginn í dag. Tæplega fimmtíu prósent aukning er í skráningum í hálfmaraþon þar sem tæplega 2.000 hlauparar hafa skráð sig. Þá eru um 700 hlauparar skráðir í heilt maraþon. Þá hefur áheitasöfnun gengið vonum framar og hafa nú safnast tæpar 29 milljónir króna til góðra málefna af því er fram kemur í tilkynningu Íslandsbanka.

Aldrei fleiri erlendir hlauparar

Um 1.300 erlendir hlauparar taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í ár og hafa aldrei verið fleiri. Hlaupararnir eru víðsvegar að úr heiminum, m.a. frá Austur Tímor, Argentínu, Taiwan, Filippseyjum, Venesúela, Haíti, Jamaica og Laos. Flestir erlendir hlauparar koma frá Bandaríkjunum eða 373, 233 koma frá Kanada, 149 frá Þýskalandi og 119 frá Bretlandi.

Skráningarhátíð Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka fer nú fram í Laugardalshöllinni. Þeir sem ekki skráðu sig á netinu geta gert það í höllinni í dag til klukkan 19:00 í kvöld.