Met var slegið á Keflavíkurflugvelli í fyrra þegar  2.751.743 farþegar fóru um völlinn. Þetta var 15,6% aukning á milli ára en í hittifyrra var líka slegið þar met. Þetta er því fjórða árið í röð sem met er slegið í farþegaumferð um Keflavíkurflugvöll. Fram kemur í tilkynningu frá Isavia að desember var stærsti jólamánuðurinn til þessa á Keflavíkurflugvelli með 30,1% farþegaaukningu milli ára.

Þá segir í tilkynningunni að farþegar á leið til og frá landinu voru alls 2.281.968 í fyrra sem er 14,8% aukning frá árinu á undan og skiptifarþegar, sem hafa viðdvöl á flugvellinum á leið milli Evrópu og Ameríku, voru alls 469.775 sem er 19,66% aukning. Útlit er fyrir að farþegum um Keflavíkurflugvöll muni enn fjölga um 18,5% á þessu ári og eru umtalsverðar endurbætur ráðgerðar á Flugstöð Leifs Eiríkssonar til þess að auka afkastagetu og þægindi flugfarþega.