„Starfsfólk Vinnslustöðvarinnar hefur á fyrstu þremur mánuðum ársins framleitt meira af saltfiski en á öllu árinu 2018. Ef svo fer sem horfir verður framleiðslan um miðjan aprílmánuð orðin meiri en á öllu árinu 2019. Fyrir helgina var pakkað 46 tonnum af saltfiski á einum degi. Fróðir menn telja það vera metafköst á sama sólarhringnum í fyrirtækinu.“

Vinnslustöðin greinir frá þessu á vef sínum.

„Þannig er unnið af krafti við að veiða og salta vertíðarþorsk hjá Vinnslustöðinni. Netabátarnir Kap II og Brynjólfur afla vel og sömu sögu er að segja af Drangavík. Þá hefur fyrirtækið sömuleiðis keypt fisk af viðskiptabátum sínum.“

Með saltfiskframleiðslunni er Vinnslustöðin ekki síst að huga að jólamatnum í Portúgal, því á aðfangadagskvöld jóla borða Portúgalar um 5.000 tonn af þurrkuðum saltfiski og svarar það tl 12 þúsund tonna af fiski upp úr sjó. Þannig verður vertíðarfiskurinn hér að jólamat í Portúgal.

Vinnslustöðin eignaðist fyrir nokkru saltfiskvinnslufyrirtækið Grupeixe í Portúgal og varð þar með beinn þátttakandi í vinnslu og sölu á þessum mikilvæga markaði og ræður yfir öllum þáttum framleiðslunnar, allt frá veiðum og vinnslu hér heima til vinnslu, sölu- og markaðsstarfs þar ytra. Nú um stundir miðast starfsemin við að safna birgðum til jóla en saltfiskur hefur líka selst vel undanfarnar vikur eftir að veirufaraldurinn Covid 19 náði til Portúgals. Saltfiskur geymist enda vel og er í hávegum hafður við margvísleg önnur hátíðleg tækifæri en á jólum, til að mynda á veisluborðum páskahátíðarinnar.

Vinnslustöðin fylgir ströngum starfs- og öryggisreglum til lands og sjávar vegna veirufaraldursins. Höfðað er til starfsfólks um að fylgja tilmælum um hreinlæti og að hafa fulla aðgát yfirleitt í samskiptum á vinnustað og utan vinnu. Veiran leikur samfélagið í Eyjum grátt, líkt og fjallað hefur verið um í fréttum fjölmiðla..

Áður en faraldurinn barst til landsins höfðu verið skipulagðar tilteknar sóttvarnaráðstafanir hjá Vinnslustöðinni og eftir þeim var farið frá upphafi í góðu samstarfi allra í fyrirtækinu. Smit- og sjúkdómstilvik hafa því verið færri í fyrirtækinu en hefði mátt ætla en allir eru þess meðvitaðir að faraldurinn hefur enn ekki náð hámarki á Íslandi og óvissa ríkir um afleiðingarnar.

Sama á auðvitað við um Portúgal, markaðssvæði saltfisksins sem nú verið er að framleiða í Eyjum. Enginn sér fyrir efnahagslegar afleiðingar faraldursins þar frekar en annars staðar. Þá er ekki annað að gera en að veiða, vinna, salta og vona hið besta. Og hlýða Víði.“