Fasteignaverð í Bretlandi hefur aldrei fallið meira en á síðasta ári að því er fram kemur í tölum Nationwide í gær. Féll fasteignaverð á landsvísu á árinu 2008 um 15,9%.   Varað er við því að sterkar líkur séu á frekara verðfalli fasteigna í landinu, en að meðaltali féll íbúðaverð um 2,5% í desember. Gerði það verðfall út um vonir manna um að jafnvægi væri að nást.   “Það var búist við snöggri kólnun á fasteignamarkaði á síðasta ári vegna versnandi stöðu í efnahagslífinu. Við gerðum þó ekki ráð fyrir að fasteignaverðið félli með þessum hraða,” sagði Fionnuala Earley yfirhagfræðingur Nationwide.   Eru tölur Nationwide í samræmi við tölur Halifax sem er stærsti veðlánaveitandi í Bretlandi. Tölur Halifax á síðasta ársfjórðungi 2008 sýndu 16,2% verðfall á milli ára.   Earley segir erfitt að spá um framvinduna því aðstæður á fasteignamarkaði séu mjög hvikular.