Ráðgjafarfyrirtækið Capacent metur virði bréfa Arion banka 89 krónur á hlut, 18% hærra en þær 75,6 krónur sem bréfin stóðu í við lokum markaða í gær. Þetta kemur fram í verðmati í kjölfar síðasta ársfjórðungsuppgjörs. Verðmatið samsvarar heildarmarkaðsvirði upp á 161 milljarð króna, rúmum 24 milljörðum hærra en það stóð í við lokun markaða í gær. Matið er 6 krónum, eða 6,5%, lægra en síðasta mat fyrirtækisins frá því í ágústlok, sem útskýrist að mestu leyti af lægri vaxtamun, en sterkari grunnrekstur vegur upp á móti.

Hagnaður bankans á fyrstu níu mánuðum ársins dróst saman um tæpan helming frá fyrra ári og nam 6 milljörðum króna. Af þeim 5,3 milljarða króna samdrætti í hagnaði má rekja 2,5 milljarða til viðsnúnings í rekstri Valitor, sem fór úr 1,3 milljarða króna hagnaði fyrstu 9 mánuði síðasta árs, í 1,2 milljarða tap yfir sama tímabili í ár. Til viðbótar má rekja allt að 1,7 milljarða króna í aukinni virðisrýrnun útlána til flugfélagsins Primera Air. Þá fékk bankinn 2 milljarða króna greidda úr Innstæðutryggingasjóði í fyrra, en greiddi 600 milljónir til sjóðsins á sama tímabili í ár.

Horfa verði fram hjá Valitor
Eins og fram kom í uppgjöri þriðja ársfjórðungs Arion banka í lok október hefur bankinn sett Valitor í söluferli. Í því ljósi verður að horfa fram hjá áhrifum kortafyrirtækisins á rekstur bankans, samkvæmt verðmatinu, en þau eru umtalsverð. Af 13,8 milljarða króna heildarlaunakostnaði bankans var hlutur Valitor 5,9 milljarðar, eða tæp 43%. Á fyrstu 9 mánuðum síðasta árs voru áhrif Valitor á kostnaðarhlutfall bankans, sem var 54,2%, 3,5% lækkun.

Á sama tímabili á þessu ári voru áhrifin hins vegar 8,3% hækkun og kostnaðarhlutfall bankans komið í 63,5%. Þrátt fyrir tæpa 10% hækkun kostnaðarhlutfalls milli ára, lækkaði kostnaðarhlutfall að undanskildum áhrifum Valitor þannig úr 57,7% í 55,2%. Því meta greinendur Capacent stöðuna sem svo að grunnrekstur bankans sé að styrkjast.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .