Greiningaraðilar hjá Capacent meta gengi bréfa Arion banka á 84 krónur á hlut í nýlegu verðmati. Bankinn er því í heild metinn á 152,7 milljarða króna sem er um 8,1% yfir markaðsvirði hans við lokun markaða á miðvikudag. Verðmat Capacent hækkar lítillega frá síðasta mati eða um 2,5% vegna endurskoðunar á rekstraráætlun.

Í matinu er eðlilega komið inn á 3 milljarða tap Arion banka af eignum í söluferli og bent á að sveiflur í silíkonverði hafi haft meiri áhrif á rekstur bankans á fyrstu níu mánuðum ársins en afkoma eignarstýringarsviðs. Þá er einnig komið inn á það sem greinandi kallar bleika fílinn í herberginu sem er Valitor og undanfarin vandræði þess. Capacent gerir ekki ráð fyrir sölu Valitor í verðmatinu þar sem bæði sé verðið óvíst auk þess sem horfur á sölu séu dekkri nú en í byrjun árs.