Greiningaraðilar hjá Deutsche Bank meta gengi bréfa Arion banka á 195 krónur á hlut í nýlegu verðmati. Bankinn er því í heild metinn á 295 milljarða króna sem er um 8,3% yfir markaðsvirði hans við lokun markaða í gær.

Verðmat DB hækkar talsvert frá síðasta mati eða um 17,5% sem miðaði við 166 krónur á hlut. Í matinu segir að horfur séu á betri arðsemi og hærri ávöxtun eigin fjár hjá Arion, en bankinn birtir uppgjör fyrir fjórða ársfjórðung á morgun, 9. febrúar.

DB áætla að stýrivextir Seðlabankans muni hækka um 100 punkta bæði á þessu ári og á því næsta. DB gerir auk þess ráð fyrir vexti í fyrirtækjalánum og að árlegur meðalvöxtur tekna hjá bankanum verði 6% á árunum 2021-2023, auk þess að sala Valitor til Rapyd skili 3,5 milljarða króna bókfærðum hagnaði. DB spáir árlegum meðalvexti rekstrarhagnaðar upp á 15% hjá bankanum á tímabilinu 2021 til 2023 og að arðsemi eigin fjár verði 13% í lok árs 2023.

DB segir að áframhaldandi hagræðing í rekstri muni leiða til þess að kostnaðarhlutfallið hjá Arion lækki niður í 44% fyrir lok árs 2023, en hlutfallið var 48% árið 2020.

Meðal áhættuþátta í rekstrinum að mati DB eru ef horfur versna í þjóðarbúskapnum, hægari stýrivaxtahækkanir en vænst er og reglugerðabreytingar sem hafa áhrif á fjármagnsþörf bankans. Hins vegar geti meiri stýrivaxtahækkanir en vænst er skilað bankanum ábata og þá gæti ávöxtun eigin fjár reynist hærri en spáin gerir ráð fyrir.