AEX Gold, námuvinnslufélagið sem Eldur Ólafsson stýrir, er metið á 6,8 milljarða króna eða um 170% yfir markaðsverði samkvæmt nýlegu verðmati sem unnið var fyrir félagið af EBL Consultants. Núverandi markaðsvirði félagsins er um 2,7 milljarðar króna, en félagið er skráð á markað í Toronto í Kanada.

Verðmatið miðast við 1,05 Kanadadollara á hlut en gengi félagsins stendur nú í 0,38 Kanadadollurum á hlut. AEX Gold hyggst hefja gullvinnslu á næsta ári í námu í Nalunaq, syðst á Grænlandi.

„Við ætlum að að hefja framleiðslu strax á næsta ári. Við ætlum að byrja smátt og aukum við okkur í hægum skrefum þannig að full vinnsla hefjist 2022,“ segir Eldur sem er einn stofnenda og forstjóri AEX Gold.

Fyrirtækið var stofnað fyrir fimm árum. Það keypti fyrstu gullnámuna á Grænlandi árið 2015 og var skráð á markað árið 2017. Gullvinnsla var í Nalunaq á árunum 2004-2013 en hún stöðvaðist í kjölfar þess að félagið sem rak námuna varð gjaldþrota. Þegar sé búið að fjárfesta í vegum, höfn og öðrum innviðum í kringum námuna fyrir um 20 milljarða króna. „Það liggur fyrir þekking þarna á því hvernig á að vinna á svæðinu og hver kostnaðurinn sé við það,“ segir hann.

Hátt gullhlutfall í námunni

Í verðmatinu er áætlað að heildarframleiðslukostnaður félagsins (AISC) við að vinna hverja únsu af gulli verði 577 dollarar en heimsmarkaðsverð á gulli stendur nú í tæpum 1.500 dollurum á únsuna. Eldur segir að áætlað sé að um 18,7 grömm af gulli séu í hverju unnu tonni í Nalunaq-námunni á meðan heimsmeðaltalið í gullnámum sé á bilinu 2-3 grömm af gulli í hverju tonni og fari lækkandi. Notast er við 20% ávöxtunarkröfu í verðmatinu. Ávöxtunarkrafan sé há þar sem taka þurfi tillit til þess að töluverð áhætta sé til staðar. Óvissa er um hvort jafn mikið gull sé til staðar og vonast er til og hve vel gangi að grafa eftir því auk þess að verð á gulli hafi sveiflast töluvert í gegnum tíðina.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .