*

laugardagur, 6. júní 2020
Innlent 14. september 2019 17:23

Meta Festi á 39,4 milljarða

Capacent greining metur gengi bréfa Festi um 5% undir markaðsvirði félagsins.

Ástgeir Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Capacent metur gengi bréfa Festi á 119,6 krónur á hlut í nýlegu verðmati á félaginu og lækkar um tæp 5% frá síðasta mati. Markaðsvirði félagsins er því metið á um 39,4 milljarða króna sem er um 5% undir markaðsvirði þess við lokun markaða á miðvikudag.

Í matinu segir að afkoma félagsins á öðrum ársfjórðungi hafi verið undir væntingum Capacent annan ársfjórðunginn í röð auk þess sem sala hafi verið minni en gert var ráð fyrir. Fyrst og fremst var það sala á eldsneyti sem var undir væntingum greinanda en selt magn eldsneytis án þotueldsneytis dróst saman um 7,4% á fyrri hluta ársins frá sama tímabili í fyrra þá sérstaklega vegna samdráttar í komu ferðamanna til landsins auk efnahagssamdráttar.

EBITDA Festi nam 3.222 milljónum króna á fyrri hluta ársins en rekstraráætlun félagsins gerir ráð fyrir að hún verði á bilinu 7.400 milljónir til 7.700 milljónir og þarf því að verða um 35% hærri á seinni hluta ársins.  Greinendur gera ráð fyrir því að svo verði en gerir þó ekki ráð fyrir að félagið nái markmiðum sínum heldur spáir að EBITDA verði um 6.945 milljónir króna á yfirstandandi ári.

Skortir á framtíðarsýn

Í verðmatinu kemur fram að velta megi fyrir sér hver framtíðarsýn olíudreifingarfyrirtækjanna sé nú þegar um 10 ár eru þangað til sala á fólksbílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti eigi að vera hætt. Að mati greinanda hefur þótt skorta á framtíðarsýn hjá fyrirtækinu. 

Framtíðarsýn fyrirtækisins virtist hafa verið sú að með sameiningu N1 og Festi sem átti sér stað fyrir um ári síðan hafi átt að ná fram aukinni framlegð af vörusölu bensínstöðva með hagstæðari innkaupum og samlegð í stjórnunarkostnaði. Hins vegar sé stóra spurningin sú hvort tími bensínstöðvanna hafi ekki að mestu verið liðinn og hvort N1 muni enn frekar gefa eftir í samkeppni á eldsneytismarkaði á meðan kraftar stjórnenda fari í sameiningu.

Stikkorð: N1 Festi