Uppgjör Icelandair Group á þriðja ársfjórðungi var lítillega undir væntingum greiningardeildar Arion banka. Til dæmis voru tekjur félagsins tæpum 3% lægri en greiningardeildin spáði. „Þar sem um langstærsta fjórðunginn er að ræða hjá félaginu, bæði hvað veltu og afkomu varðar, lækkum við tekjuspá okkar fyrir árið í heild sem og okkar afkomuspá,“ segir í fyrirtækjagreiningu frá greiningardeildinni sem ætluð er fagfjárfestum.

Virðismat á félaginu er þó hækkað um 5% í dollurum talið og alls um 13% í krónum. Munurinn er vegna veikingar krónunnar frá síðasta virðismati á Icelandair. Virðismatsgengi er 9,2 krónur á hlut að mati greiningardeildarinnar en verð við lokun markaða í dag var 7,56 krónur á hlut. Virðismatið er því rúmlega 20% hærra en lokagengi á markaði. Mælt er með kaupum í félaginu.

Greiningardeildin telur það jákvæðar fréttir fyrir Icelandair Group að Wow Air hafi yfirtekið rekstur Iceland Express. Við það ætti samkeppni að minnka, að minnsta kosti til skemmri tíma. Líklegt sé að verðstríðið sem geisaði á þessu ári hafi lækkað framlegð Icelandair á flugleiðunum til Kaupmannahafnar og London.