*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 15. júlí 2017 16:02

Meta Haga á 60 milljarða

Verðmat Capacent á Högum er 35% yfir markaðsvirði fyrirtækisins og er þá miðað við að kaupin á Olís og Lyfju og gangi í gegn.

Trausti Hafliðason
Finnur Árnason, forstjóri Haga.

Capacent hefur uppfært verðmat sitt á Högum. Samkvæmt nýja matinu er verðmatsgengið, miðað við óbreyttan rekstur, 48,6 og lækkar um 20% frá fyrra verðmati. Verðmatið er dagsett þann 6. júlí en þá var gengi hlutabréfa í Högum 38,9.

„Hins vegar eru framundan miklar breytingar í rekstri Haga og kaupin á Lyfju, Olís og DGV fasteignafélagi munu, ef af þeim verður, breyta fyrirtækinu mikið og mögulega auka framlegð og EBITDA félagsins um nálægt 50%," segir í verðmatinu.  „Verðmat Capacent á Högum með þessum fyrirtækjum innanborðs nemur 60,4 milljörðum króna,  sem jafngildir verðmatsgenginu 52,4. Verðmat Capacent er því 35% yfir gengi á markaði þann 6.júlí."

Töluverð tækifæri

Í verðmatinu segir að Hagar hafi birt afar takmarkaðar upplýsingar um kaupin á Olís og Lyfju „en svo virðist sem töluverð samlegðartækifæri geti fylgt þessum kaupum sem gæti skilaðauknu virði til hluthafa Haga. Varðandi kaupin á Olís og Lyfju verður að hafa í huga að beðið er eftir samþykki Samkeppniseftirlitsins á kaupunum og áreiðanleikakönnun á rekstri Olís."

Uppgjör Haga fyrir fyrsta ársfjórðung, sem birt var í lok júní, olli vonbrigðum að mati sérfræðinga Capacent.

„Tekjur drógust saman um 4,7% og EBITDA hlutfallið lækkar úr 6,9% í 6,7%. Ef frá eru talin áhrif af aflagðri starfsemi er sölusamdráttur milli ára rétt innan við 1%. Líkt og kemur fram í fréttatilkynningu Haga með uppgjörinu eru verðhjöðnun samhliða þenslu á vinnumarkaði mikil áskorun fyrir félagið."

Ekkert minnst á Costco

Í síðustu viku, eða þann 5. júlí, sendu Hagar út afkomuviðvörun í kjölfar bráðabirgðauppgjörs fyrir fyrir júní, „sem sýnir að áhrif breyttra markaðsaðstæðna á tekjur og framlegð Haga eru meiri en við höfðum reiknað með," segir í verðmati Capacent.

„Ef aðeins er horft til júnímánaðar er magnsamdráttur hátt í 10% hjá matvöruverslunum Haga og sölusamdráttur í krónum talið 8,5%. Við þetta bætist samdráttur vegna aflagðrar starfsemi. Þó ekkert sé minnst á Costco í tilkynningum Haga er ljóst að þessar breytingar tengjast á beinan hátt innkomu Costco á íslenskan markað. Áhrifin takmarkast ekki einungis við markaðshlutdeild Costco heldur mun aukin samkeppni að öllum líkindum leiða til aukinnar verðvitundar neytenda og lækkunar á álagningu.

Í ljósi nýjustu frétta hefur Capacent endurskoðað rekstrarspá sína fyrir Haga og lækkað verðmatið en þrátt fyrir það er verðmatsgengið langt yfir markaðsgengi. Fjármagnskostnaður og vaxtastig hefur farið hratt lækkandi á Íslandi en á móti kemur að Capacent hefur hækkað sértækt álag í ávöxtunarkröfu Haga vegna óvissu sem tengist fyrirtækjakaupum og Costco áhrifum. Fjármagnskostnaður Haga er nú metinn um 7,6% en var áður 7,5% (raunávöxtun)."

Óþarfa taugaveiklun?

Capacent varpar fram þeirri spurningu hvort óþarfa taugaveiklun sé í garð Haga á markaðnum.

„Verðmatsgengi Capacent hefur legið nokkuð yfir gengi á markaði frá því að Capacent hóf að greina rekstur Haga. Oftast hefur munurinn legið á bilinu 5 til 10%. Hins vegar er munurinn nú kominn í um 35% þrátt fyrir talsverða lækkun á verðmati Capacent. Spurningin er hversu mikil Costco-áhrifin verði til lengri tíma en það er ljóst að stjórnendur Haga verða að bregðast við aukinni samkeppni, m.a. með hagræðingu í rekstri."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Stikkorð: Hagar Capacent Finnur Árnason Hagkaup Bónus verðmat