*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 5. maí 2018 10:20

Meta Heimavelli yfir útboðsgengi

Capacent metur eigið fé Heimavalla á 1,74 krónur á hlut sem er allt að 26% yfir útboðsgengi félagsins.

Ritstjórn
Guðbrandur Sigurðsson, forstjóri Heimavalla. Félagið ætlar að bæta við 329 íbúðum í eignasafn sitt á höfuðborgarsvæðinu í ár og á næsta ári, en selja íbúðir í öðrum landshlutum.
Haraldur Guðjónsson

Ráðgjafafyrirtækið Capacent metur eigið fé leigufélagsins Heimavalla á 1,74 krónur á hlut. Er það allt að 26% yfir útboðsgengi félagsins. Þetta kemur fram í verðmati Capacent á Heimavöllum.

Á mánudaginn hefst almennt útboð á 750 milljón hlutum í Heimavöllum, en ef eftirspurn er nægileg hefur félagið heimild til að fjölga hlutunum í 900 milljónir. Lágmarksgengi í útboðinu er 1,38 krónur á hlut og með sölu á 750 milljón hlutum miðað við það fengju Heimavellir 1.035 milljónir króna með sölunni. Hámarksgengi í útboðinu er 1,71 króna á hlut.

Í kjölfar útboðsins verður allt hlutafé Heimavalla skráð á aðalmarkað Kauphallar Íslands. Markmið útboðsins er að fjölga hluthöfum svo félagið uppfylli skilyrði aðalmarkaðarins um nægilega dreifingu hlutafjár og fjölda hluthafa.

Heimavellir verða fjórða skráða fasteignafélagið í Kauphöllinni. Fyrir eru Eik, Reginn og Reitir, en Heimavellir hafa þá sérstöðu að sinna útleigu á íbúðum til langs tíma.

Frá því að Heimavellir var stofnað árið 2015 hefur fjöldi íbúða í eignasafni félagsins aukist úr 445 í 1.968 í lok síðasta árs. Virði eignasafnsins hefur einnig aukist úr 10,2 milljörðum króna í 53,6 milljarða á sama tímabili. Hefur félagið því staðið í miklum fjárfestingum – sameiningum og yfirtökum – frá stofnun og vaxið hratt, en samkvæmt útboðslýsingu Heimavalla er hafin vinna að því að vinna úr eignasafninu og endurfjármagna skuldir félagsins.

Samkvæmt Capacent er tilgangur hlutafjárútboðs Heimavalla að greiða upp óhagstæð skammtímalán og til að fjármagna fjárfestingar á eignum við Jaðarleiti. Verðmat Capacent byggir á núvirtu frjálsu fjárflæði og upplýsingum sem fram koma í útboðslýsingu Heimavalla.

Í verðmati Capacent er einnig farið yfir tækifæri og áhættuþætti Heimavalla. Ávöxtun leiguíbúða hafi aukist á undanförnum sjö árum á höfuðborgarsvæðinu og utan þess, auk þess sem eftirspurn eftir leiguhúsnæði hefur almennt verið til staðar í smærri sveitarfélögum. Íslendingar hafa í auknum mæli ákveðið að leigja frekar en að eiga, eins og endurspeglast í því að hlutfall leiguíbúða af heildaríbúðum hefur hækkað úr 14% í um 22% frá árinu 2010. Þá eru tækifæri til staðar í byggingu íbúða fyrir eldri borgara.

Óvissa ríkir þó með endurfjármögnun Heimavalla og fyrirhugaða endurvinnslu á eignasafni félagsins. Þá er ákveðin áhætta fólgin í hlutafjárútboði Heimavalla þar sem félagið er minna en þau fasteignafélög sem fyrir eru á markaði og hefur stutta rekstrarsögu. Minni eftirspurn eftir leiguhúsnæði vegna breyttra markaðsaðstæðna gæti grafið undan hagkvæmni í rekstri Heimavalla og skapað óvissu um rekstrarforsendur þess, þó félagið gæti brugðist við með sölu eigna. Þá er áhætta fólgin í auknu framboði íbúðarhúsnæðis á vegum verkalýðsfélaga og sveitarfélaga.