Greiningarfyrirtækið Wedbusch Securities telur að verðmæti Facebook liggi í kringum 44 dollara á hvern hlut. Verðmatið er hið fyrsta sem birt er síðan Facebook tilkynnti að það selji hlutabréf í félaginu á bilinu 28 til 35 við skráningu á markað.

Sérfræðingur hjá Wedbusch segir að Facebook ætti að græða á fjölgun notenda sem eykur auglýsingatekjur enn frekar. Hann sagði að fjárfestar ættu að sýna þolinmæði, kjósi þeir að eignast hlut í félaginu.

Hlutafjárútboði Facebook lýkur þann 17. maí næstkomandi en fastlega er gert ráð fyrir að útboðið verði það stærsta í sögunni hjá tölvufyrirtæki. Alls eru til sölu 180 milljónir hluta. Þar af er Mark Zuckerberg, stofnandi félagsins, að selja 30,2 milljónir hluta af 533,8 milljóna hluta eign sinni.