IFS Greining metur sem svo að verðmæti Icelandair sé nokkuð umfram útboðsgengi félagsins sem notað er í útboðinu sem fram fer miðvikudag og fimmtudag komandi, 16. og 17. september.

Í útboðinu er hvert bréf félagsins verðlagt á genginu 1, en greiningarfyrirtækið metur útboðsgengið á 2,0, og að markaðsgengið verði 2,3 eftir tólf mánuði, þó með fyrirvörum um mikla óvissu vegna heimsfaraldurs Covid 19 veirunnar.

Þrátt fyrir það segir greiningarfyrirtækið að gert hafi verið ráð fyrir lægri tekjum til framtíðar en áætlanir stjórnenda Icelandair mæla fyrir um. Áhrif kórónuveirufaraldursins geti nefnilega verið meira langvarandi en áhrif annarra áfalla á flugiðnaðinn, þó það verði væntanlega mismikið milli svæða.

Mikilvægasta markaðssvæðið jafnað sig sögulega hægar

Eftir efnahagshrunið 2008 hafi tekið mun lengri tíma fyrir eftirspurn á Norður Ameríkumarkaði að jafna sig, eða 28 mánuði heldur en Evrópumarkað þar sem það tók einungis 10 mánuði.

Í áætlunum Icelandair er gert ráð fyrir að farþegaflug í heiminum nái fyrri styrk árið 2024, en áður hafði alþjóðasamtök flugfélaga, IATA gert ráð fyrir að það myndi nást árið 2023. Í Greinigu Morgan Stanley eru þrjár sviðsmyndir, bjartsýnar, svartsýnar og á milli sem gera ráð fyrir að þetta náist á árabilinu 2022 til 2024.

Stjórnendur Icelandair gera annars vegar ráð fyrir viðsnúningi strax á næsta ári og fjölgun verði í fjölda farþega en hins vegar að fjöldinn taki við sér árið 2022. Einnig endurkomu Boeing 737 Max vélanna í flota félagsins, áframhaldandi dræmri eftirspurn eftir eldsneyti og þar með lágu verði og hóflegri styrkingu íslensku krónunnar.

Kostnaðurinn verði svipaður og á mjög góðu rekstrarári

Þannig gera áætlanirnar ráð fyrir að kostnaðarmælikvarðar verði á svipuðum slóðum og árunum 2015 til 2017 að meðtöldum nýju samningunum við starfstéttir, en árið 2015 var mjög gott í rekstri félagsins og ekki hafi tekist að endurnýja það vegna mistaka í í breytingum á leiðarkerfi, mikillar samkeppni og launa, kostnaðar og gengisþrúnar. Nýir samningar við flugvirkja eiga að skila 10% aukinni hagkvæmni, 25% aukin hagkvæmni í samningunum við flugmenn og 20% í nýju samningunum við flugfreyjur.

Samkvæmt þeim á að lækka heildarlaunakostnaðinn niður í 2,1 dollarasent á sætiskílómetra árið 2024, á móti 2,3 dollarasentum árið 2018, það er 8% lækkun launakostnaðar sem hefur verið félaginu sögulega hár. Lækkunin samsvarar 23 milljónum Bandaríkjalana, eða ríflega 3,1 milljarði króna miðað við núverandi gengi.

Næst hæsti launakostnaður 17 samanburðarfélaga

Samt sem áður sýnir samanburðartafla í greiningunni að félagið er með næst hæsta kostnaðarhlutfall launa af tekjum, það er 32,6%, en eina félagið sem er með hærra hlutfall var Southwest Airlines í Bandaríkjunum með 37,0%. Þessi tvö voru þau einu þeirra 17 sem borin voru saman sem voru með hærra hlutfall en 30% tekna í launakostnað, en 6 voru með lægra en 20%, en hlutfallið fer lægst í 13% hjá Ryanaair.

Stór hluti tekna Icelandair hafa komið frá ferðamönnum frá Bandaríkjunum, svo mikilvægt er fyrir félagið að sá markaður opnist á ný til að áætlanir gangi eftir. Segir greiningin að þegar landið hafi opnast um tíma í sumar hafi sætanýtingin hjá Icelandair verið mun betri en hjá keppinautunum vegna þess hve vinsæll ferðamannastaður Ísland sé, eða 70% á móti 40 til 50%.

Skoða mögulega fjarveru Norwegian og innkomu Play á markaðinn

Félagið sér tækifæri í því að keppinautar hafi þurft að loka flugleiðum yfir Atlantshafið en áhættuþáttur sé í því hvort frambjóðendur komandi forsetakosninga setji baráttuna gegn Covid 19 sem eitt af kosningamálunum.

Annað atriði sem greiningin nefnir sé hvort félög eins og Norwegian sem hafi verið mikilvirkur keppinautur Icelandair í flugi yfir Atlantshafið geti aukið framboð sitt hratt á ný, og jafnvel geti félagið farið í greiðslustöðvun snemma á næsta ári.

Á móti er nefnt að sterk samkeppni geti komið frá flugfélaginu Play sem er í burðarliðnum, þó það geti einnig verið lyftistöng fyrir Icelandair ef félaginu takist að auka sviðsljósið á Íslandi sem áfangastaðar.