Hagfræðideild Landsbankans hefur í fyrsta sinn gefið út verðmat á Marel, en samkvæmt því er verðmatsgengið um 143,6 krónur á hlut, eða 8% yfir skráðu gengi félagsins við lokun markaða á fimmtudag. Í verðmatinu segir að margt vinni með félaginu þegar horft sé fram á næsta ár, þar á meðal efnahagsbati í Bandaríkjunum og lækkanir á hrávörumörkuðum.

Stjórnendur félagsins hafa að mati Hagfræðideildarinnar verið nokkuð sannfærandi í rökstuðningi sínum fyrir breytingum sem gerðar hafa verið og gefi það deildinni tiltrú á horfur félagsins næstu árin. Verð hlutabréfa Marels hefur hækkað um 35% síðustu 3 mánuði vegna góðrar afkomu félagsins á þriðja ársfjórðungi og væntinga um bætta afkomu á næsta ári.