*

mánudagur, 27. janúar 2020
Innlent 10. ágúst 2019 18:01

Meta Össur á 380 milljarða

Norksi fjárfestingarbankinn ABG Sundal Collier hefur hækkað verðmat sitt á Össuri um 19,5% frá síðasta mati.

Ástgeir Ólafsson
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar
Eva Björk Ægisdóttir
Greinendur hjá norska fjárfestingabankanum ABG Sundal Collier meta virði stoðtækjaframleiðandans Össurar á 49 danskar krónur á hlut eða sem samsvarar markaðsvirði upp á rúmlega 20,8 milljarða danskra króna. Samsvarar það um 380 milljörðum íslenskra króna. Verðmatið er um 9% yfir núverandi markaðsvirði Össurar og mælir fjárfestingabankinn því með kaupum í félaginu.

Greinendur bankans hækkuðu verðmatsgengi félagsins um 19,5% frá síðasta mati en hækkunin byggist á sterku uppgjöri Össurar fyrir annan ársfjórðung auk þess sem fyrirtækið hækkaði spá sína fyrir innri tekjuvöxt á árinu úr 4–5% í 5–6% sem greinendur ABG telja vel gerlegt og líklegra sé að vöxtur ársins verði á efri enda bilsins. Í verðmatinu er gert ráð fyrir að langtíma söluvöxtur verði 5%, EBITDA-framlegð verði 23% og að veginn fjármagnskostnaður (WACC) verði 7%.

Stikkorð: Össur