Sameinað félag Kviku banka, TM og Lykils er verðmetið á um 81,7 milljarða króna, sem jafngildir genginu 17,6 krónum á hlut. Þá mun lækkun fjármögnunarkjara leika lykilhlutverk í að áætluð 1,2 til 1,5 milljarða króna samlegð samrunans náist fram. Markaðurinn greinir frá þessu og vísar í niðurstöðu grunnsviðsmyndar verðmatsgreiningar markaðsviðskipta Landsbankans.

Umrædd sviðsmynd ku hafa verið send á útvalda viðskiptavini bankans milli jóla og nýárs. Í sviðsmyndinni segir að verðmatsbilið sé 13,6 til 20,9 krónur á hlut.

Í verðmatinu segir að jákvæð áhrif sameiningar tveggja banka, sem sagt Kviku og Lykils, séu nokkuð augljós. Þó er bent á að „sameining banka og tryggingafélags af sömu stærð sé ekki algeng og samlegðaráhrifin, bæði í kostnaði og tekjum, hvorki auðfundin né framkvæmanleg að okkar mati," líkt og segir í frétt Markaðarins.