Félagið Bumble Inc, sem heldur úti samnefndu stefnumótasmáforriti, hefur sett stefnuna á að félagið verði metið á um 6 milljarða dala í fyrirhuguðu frumútboði. Reuters greinir frá.

Stefnir félagið á skráningu á markað í Bandaríkjunum en hlutabréfamarkaður vestanhafs hefur farið með himinskautum undanfarna mánuði. Til marks um það söfnuðu fyrirtæki 168 milljörðum dala í gegnum frumútboð á síðasta ári og hefur aldrei safnast jafn há fjárhæð í tvo áratugi. Stefnir Bumble á að selja 34,5 milljónir hluta í fyrirtækinu í útboðinu.

Það sem greinir Bumble helst frá öðrum stefnumótasmáforritum er það að í Bumble er það alfarið undir konum komið að brjóta ísinn og hefja samskiptin.

Fyrirtækið var stofnað árið 2014 af Whitney Wolfe Herd, en hún var einmitt einn af stofnendum vinsælasta stefnumótasmáforritsins, Tinder. Hún steig út úr rekstri Tinder fyrr sama ár til þess að hrinda hugmyndinni á bakvið Bumble í framkvæmd.