Hæstiréttur Íslands hefur fellt dóm sem kveður á um að skrá beri vatnsréttindi jarðeigenda við Jökulsá á Dal í fasteignaskrá. Eftir dóm Hæstaréttar geta sveitarfélög, sem hafa virkjaðar ár á sínu landi og vatnsréttindin séu arðgæf, óskað eftir því að Þjóðskrá Íslands meti vatnsréttindin til fasteignamats. Í framhaldinu geta þau innheimt fasteignagjöld af vatnsréttindunum.

Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár Íslands, segir að viðræður séu nú í gangi milli Fljótsdalshéraðs og Þjóðskrár Íslands um tilhögun á tilkynningu vatnsréttindanna frá sveitarfélaginu og með hvaða hætti þau verða skrá í fasteignaskrá.

Spurð hvernig Þjóðskrá hyggist meta vatnsréttindin til fasteignamats svarar Margrét: „Þjóðskrá Íslands mun nú vinna að aðferðafræði við að meta vatnsréttindi sem skilin hafa verið frá jörðu og eru arðgæf. Í ljósi þess hve nýlega dómur Hæstaréttar í máli Landsvirkjunar gegn Fljótsdalshéraði og Þjóðskrá Íslands féll er ekki mögulegt að skýra matsaðferðina að svo stöddu en kappkostað verður að fasteignamat vatnsréttindanna liggi fyrir eigi síðar en í lok þessa árs.

Eftir þennan tímamótadóm Hæstaréttar vaknar óhjákvæmilega upp spurningin hvort ekki þurfi að meta vatnsréttindi í öllum virkjuðum ám á Íslandi til fasteignamats. Margrét segir að skilyrði fyrir fasteignamati vatnsréttinda, sem skilin hafa verið frá jörðum, er að þau séu talin arðgæf.

„Samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna hvílir tilkynningarskylda um lóðir og mannvirki, og nú vatnsréttindi, á viðkomandi sveitarfélagi. Að fenginni tilkynningu frá sveitarfélagi verða vatnsréttindin skráð í fasteignaskrá og í framhaldi af því metin fasteignamati."

Margrét segir að stefnt sé að því að klára mat á vatnsréttindindum Jökulsár á Dal fyrir lok ársins. „Samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna hefur stofnunin tvo mánuði til að taka ákvörðun um fasteignamat eftir að tilkynning um fasteign, og nú vatnsréttindi, berst stofnuninni."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .