Verulegur bati varð á vöruskiptum við útlönd í fyrra frá árinu 2009. Miðað við bráðabirgðatölur Hagstofu, sem birtar voru í morgun, nam afgangurinn tæpum 119 mö.kr., samanborið við ríflega 87 ma.kr. árið áður, reiknað á sama gengi. Þetta má að mestu leyti þakka hagstæðri þróun viðskiptakjara, sér í lagi mikilli verðhækkun á áli á milli ára, en breytingar á magni innflutnings jafnt sem útflutnings voru fremur hóflegar. Alls nam vöruútflutningur 561 ma.kr. á síðasta ári, en á sama tíma voru fluttar inn vörur fyrir 442 ma.kr.

Svo segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka sem fjallar um vöruskiptin í dag.

Útflutningur iðnaðarvara jókst
„Í magni mælt dróst útflutningur saman í fyrra um tæp 2% frá árinu 2009, en að óreglulegum liðum á borð við skip og flugvélar slepptum varð hins vegar tæpra 2% aukning á milli ára. Aukningin skrifast fyrst og fremst á meiri útflutning iðnaðarvara, bæði afurða stóriðu og einnig annars iðnvarnings á borð við lyf og lækningatæki. Auk þess jókst útflutningur landbúanaðarafurða nokkuð á milli ára. Heldur minna var hins vegar flutt út af sjávarafurðum á síðasta ári en á árinu 2009 í magni talið, þótt verðhækkun á slíkum afurðum hafi raunar bætt fyrir minna útflutt magn og gott betur á tímabilinu.

Innflutningur að sækja í sig veðrið
Vöruinnflutningur jókst um tæp 4% í magni mælt á síðasta ári frá árinu á undan. Aukningin átti sér rót í öllum helstu undirliðum. Þannig jókst innflutningur neysluvara um ríflega 6% í fyrra frá árinu 2009. Munar þar einna mestu um 14% aukningu á innflutningi hálfvaranlegra neysluvara á borð við fatnað, 12% aukningu bílainnflutnings og tæplega 9% aukningu á innflutningi varanlegra neysluvara á borð við heimilistæki. Þá jókst innflutningur fjárfestingarvara um 5% og tæplega 3% aukning var á innflutningi rekstrarvara.

Horfur á myndarlegum afgangi enn um sinn
Í hlutfalli við áætlaða verga landsframleiðslu (VLF) nam afgangur af vöruskiptum tæplega 8% í fyrra. Er þetta mesti vöruskiptaafgangur á þennan mælikvarða sem mælst hefur undanfarna tvo áratugi, og raunar óvíst að afgangurinn hafi nokkurn tíma áður verið svo mikill á lýðveldistímanum. Ekki liggja enn fyrir tölur um þjónustujöfnuð við útlönd á síðasta fjórðungi ársins, en á fyrstu níu mánuðum ársins var ríflega 49 ma.kr. afgangur af slíkum viðskiptum. Má því ætla að samanlagður afgangur vöru- og þjónustuviðskipta árið 2010 muni reynast u.þ.b. 170 ma.kr., sem samsvarar tæpum 11% af áætlaðri VLF. Þessi ríflegi afgangur veitti krónunni talsverðan stuðning á liðnu ári, og má ætla að raunin verði svipuð á þessu ári þar sem ætla má að áfram verði drjúgur afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd.“