Þjónustuviðskipti við útlönd skiluðu meiri afgangi nú á þriðja fjórðungi en þau hafa nokkru sinnum áður gert á einum ársfjórðungi. Alls námu tekjur af þjónustuútflutningi 173,3 milljörðum króna á fjórðungnum en gjöld vegna þjónustuinnflutnings voru 93,1 milljarðar samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Hljóðar afgangurinn því upp á 80,2 milljarða króna, sem er rúmlega 10 milljörðum króna meiri afgangur en á sama tíma í fyrra.

Í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka segir að ekki komi á óvart að það hafi verið ferðaþjónustan sem spilaði lykilhlutverk í ofangreindum tölum. Er hún nú í fyrsta sinn stærsti þjónustuliðurinn bæði út- og innflutningsmegin. Alls nam útflutningur hennar 66,9 milljörðum króna en innflutningur 29,5 milljörðum. Hljóðar afgangur af ferðaþjónustu þar með upp á 37,5 milljarðar, sem er rúmlega 10 milljarða króna aukning frá sama tímabili í fyrra.

Samgöngur og flutningar skiluðu afgangi upp á 47,4 milljarða króna og skilaði ferðaþjónustan ásamt fólks- og vöruflutningum þar með samanlagt 84,9 milljörðum króna í kassann á þriðja ársfjórðungi. Önnur viðskiptaþjónusta var í halla eins og oft áður, en sá liður endurspeglar að töluverðum hluta kostnaðinn við að afla þjónustutekna, t.d. leigu á flugvélum og skipum. Var sá liður neikvæður um 17,3 milljarða króna, sem er 1,5 milljarða meiri halli en á sama tímabili í fyrra.

Nú liggja fyrir tölur um tvo af þremur helstu undirliðum viðskiptajafnaðar á þriðja fjórðungi ársins. Halli var á vöruskiptum upp á 9,9 milljarða á tímabilinu, og er það í fyrsta sinn frá hruni sem slíkt atvikast á þriðja ársfjórðungi. Nemur samanlagður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum á þriðja ársfjórðungi þar með 70,3 milljörðum króna. Þetta er 3 milljarða króna minni afgangur en á sama tímabili í fyrra, sem augljóslega má rekja til vöruskipta, en engu að síður er hér um næstmesta afgang að ræða af vöru- og þjónustuviðskiptum frá upphafi.