Stórir erlendir fjárfestingabankar skiluðu metafkomu af starfsemi sinni í Japan á síðasta ári, að stærstum hluta til vegna aukinna tekna af verðabréfastarfsemi, þrátt fyrir hlutabréfamarkaðurinn þar í landi eigi enn eftir að taka við sér eftir áratugalanga stöðnun, - Nikkei 225 hlutabréfavísitalan hefur aðeins hækkað um 13% frá því í janúar árið 2006 - að því er fram kemur í frétt Financial Times.

Tekjur bandaríska fjárfestingabankans Morgan Stanleys jukust um 21% á árinu og námu samtals 1,95 milljörðum Bandaríkjadala, sem er metafkoma hjá bankanum. Ekki langt á eftir kom Goldman Sachs, en tekjur bankans af starfsemi sinni í Japan hækkuðu um fjögur prósent á milli ára og námu 1,89 milljörðum dala. Bankarnir Merril Lynch, Deutsche Securities og UBS tilkynntu einnig allir um mettekjur af starfsemi sinni í Japan.

Sérfræðingar segja að þessi góða afkoma erlendra banka af verðbréfastarfsemi í Japan sé einkum athyglisverð fyrir þær sakir að Nikkei 225 hlutabréfavísitalan féll um næstum tuttugu prósent síðasta sumar, sem hrakti margra smáa fjárfesta frá hlutabréfamarkaðinum. Hins vegar tókst bönkunum að auka tekjurnar með því að beina sjónum sínum í auknum mæli að fagfjárfestum, bjóða upp á nýja fjármálagerninga - meðal annars verðbréfun (e. securitisation) - og veita fyrirtækjum ráðgjöf við samruna og yfirtökur þar í landi.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.