Hagnaður af rekstri álrisans Alcoa jókst um níu prósent á fyrsta ársfjórðungi. Hlutabréf í Alcoa hækkuðu um tvö prósent í kjölfar fregna af afkomunni. Gengi þeirra var 34,90 dalir við lok viðskipta á mánudag en þá var afkoman kynnt. Um er að ræða bestu afkomu fyrirtækisins á fyrsta ársfjórðungi í sögu þess. Hagnaður Alcoa á tímabilinu nam 662 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur 75 sentum á hlut. Hagnaður álrisans í fyrra voru 608 milljónir dala eða 69 sent á hlut.

Góð afkoma er meðal annars rakin til mikillar eftirspurnar frá flugvélaframleiðendum og öðrum geirum sem nota ál til framleiðslu iðnvara. Flugvélaiðnaðurinn skiptir Alcoa sérstaklega miklu máli en tíu prósent af tekjum félagsins kemur frá sölu til flugvélaframleiðenda.

Að sögn Alain Belda, aðalframkvæmdastjóra Alcoa, hefur dregið úr eftirspurn eftir áli í Norður-Ameríku en hinsvegar hafi stjórnendur fyrirtækisins vanmetið eftirspurn frá Kína auk þess sem ennþá sé eftirspurnin eftir áli sterk í Evrópu og á Indlandi. Endurspeglast þetta meðal annars í þeirri staðreynd að heimamarkaðsverð á áli hækkaði um fimmtán prósent á fyrsta ársfjórðungi. Það hefur tvöfaldast síðustu fimm ár.

Stjórnendur Alcoa eru bjartsýnir á afkomu þessa árs. Að sögn Belda mun eftirspurn eftir áli vera mikil á næstu misserum og er búist við að hún aukist um tæp átta prósent á þessu ári. Eftirspurnin mun áfram vera drifin af uppganginum í kínverska hagkerfinu auk þess sem að hún verður áfram mikil í Evrópu og á Indlandi. Birgðastaða á áli í heiminum er einnig í sögulegu lágmarki samkvæmt frétt blaðsins Financial Times. Væntingar eru um að það haldi áfram að ganga á birgðirnar það sem eftir lifir árs. Alcoa hefur líkt og mörg önnur álfyrirtæki brugðist við þessu með því að fjárfesta í byggingu fleiri álvera, meðal annars því sem nú rís í Reyðarfirði. Að sögn Belda mun rekstur þess koma inn í afkomutölur þessa árs.

Hlutabréf Alcoa hafa verið eftirsótt það sem af er árinu en gengi þeirra voru meðal þeirra sem hækkuðu hvað mest á fyrsta ársfjórðungi. Ástæða þess hefur meðal annars verið rakin til orðróms um hugsanlega yfirtöku á félaginu.