Hagnaður Burðaráss nam 24.500 milljónum króna (mkr.) á fyrstu sex mánuðum ársins 2005 og er arðsemi eigin fjár því 121% á ársgrundvelli.

?Vel heppnuð sala Eimskipafélagsins er það sem stendur upp úr á síðasta ársfjórðungi en einnig var ánægjulegt hversu vel félaginu gekk með erlendar fjárfestingar sínar. Innlendur hlutabréfamarkaður hefur einnig hækkað á árinu og skiluðu innlendar fjárfestingar Burðarási góðri ávöxtun. Niðurstaðan er því einn mesti hagnaður sem íslenskt félag hefur skilað, eða 24,5 milljarðar króna og við erum afar stolt af því," segir Friðrik Jóhannsson, forstjóri Burðaráss, í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Arðgreiðslur til Burðaráss námu 1.552 mkr. á fyrstu sex mánuðum ársins og hagnaður af eignarhlutum og afleiðum nam 11.926 mkr. á sama tíma en vaxtatekjur og aðrar tekjur voru 58 mkr. Vaxtagjöld voru 1.115 mkr. á fyrstu sex mánuðum ársins 2005 en voru 491 mkr. á sama tíma árið 2004

Gengistap var 187 mkr. en það má rekja til þess að eignir Burðaráss í erlendri mynt hafa verið hærri en skuldir sem nemur u.þ.b. 8 milljörðum króna á fyrri hluta ársins en á þeim tíma styrktist íslenska krónan um 2,5%.

Hagnaður fyrir skatta var 11.991 mkr. á fyrri hluta ársins 2005. Tekjuskattur var jákvæður um 230 mkr. en þegar tillit er hins vegar tekið til skatta af söluhagnaði Eimskipafélagsins eru skattar félagsins hins vegar 2.693 mkr. Hagnaður af áframhaldandi starfsemi eftir skatta er því 12.221 mkr.

Í maí voru undirritaðir samningar um sölu á öllu hlutafé Burðaráss í Eimskipafélagi Íslands og nam hreint söluverð 21.209 mkr. en söluhagnaður eftir skatta nam 12.198 mkr. Rekstur Eimskipafélagsins fram til 31. maí er tekinn inn í samstæðuna og nam hagnaður Eimskipafélagsins 81 mkr. á fyrstu fimm mánuðum ársins. Söluhagnaður eftir skatta og rekstur fram til 31. maí koma fram undir liðnum hagnaður af aflagðri starfsemi sem nam 12.279 mkr.

Hagnaður eftir skatta var því 24.500 mkr. en var 6.999 mkr. á sama tíma árið 2004.