Hagnaður Landsvirkjunar nam 144,5 milljónum Bandaríkjadala, eða um 19,4 milljörðum króna, á fyrri hluta árs 2022. Til samanburðar nam hagnaðurinn 55 milljónum dala, eða sem nemur 7 milljörðum króna, árið áður og þrefaldaðist því á milli ára. Þetta kemur fram í árshlutareikningi félagsins.

Afkoman hefur aldrei verið betri í sögu Landsvirkjunar. Í árshlutareikningi segir að þessi mikla hækkun hagnaðar sé einkum rakin til hækkunar á raforkuverði til stórnotenda. Þannig var meðalverð til stórnotenda án flutnings 42,1 dalir á megavattstund sem er hæsta verð á fyrri árshelmingi í sögu félagsins.

Rekstrartekjur Landsvirkjunar á tímabilinu námu 339 milljónum dala, eða sem nemur 48 milljörðum króna, og hækka um 77 milljónir dala frá sama tímabili árið áður eða um tæp 30%. Tekjurnar hafa aldrei verið hærri á hálfsárstímabili frá stofnun Landsvirkjunar. Þá var hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði 22,2 milljarðar króna og hækkar um 66,5% milli ára.

Eignir Landsvirkjunar námu um rúmum 4,5 milljónum dala, eða sem nemur 641 milljörðum króna, í lok fyrri hluta árs. Þá nam eigið fé Landsvirkjunar 2,4 milljónum dala, eða sem nemur um 340 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall félagsins var því um 53% í lok júní.

Nettó skuldir voru um 181 milljarðar króna í lok fyrri hluta árs og minnkuðu um 19,8 milljarða frá áramótum. Handbært fé frá rekstri nam tæplega 235 milljónum dala, eða sem nemur 31,5 milljörðum króna, og jókst um 43,6% frá því í fyrra.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:

„Eftirspurn eftir raforku var með allra mesta móti á tímabilinu, en orkuafhending til stórnotenda jókst um 5% og jafnframt jókst afhending forgangsorku í heildsölu um 23%. Um leið var meðalverð til stórnotenda án flutnings hærra en nokkru sinni áður á fyrri árshelmingi, eða 42,1 dalur á megavattstund. Þetta má m.a. rekja til endursamninga undanfarinna ára, sem tryggt hafa að flestir viðskiptavinir Landsvirkjunar borga verð sem er sambærilegt við það sem gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við.“