Í ágústmánuði flutti Iceland Express 48,5% farþega sem ferðuðust frá Lundúnum til Keflavíkur. Sambærilegar tölur fyrir maí voru 33,7% og í júní var hlutfallið 41,26%, að því er kemur fram í tilkynningu frá Iceland Express.  Í júlí var hlutfallið 44,78% og hefur því farið hækkandi. Tölurnar eru frá bresku flugmálastjórninni.

„Lágt farmiðaverð og aukin tíðni hafa skilað Iceland Express þessum árangri í markaðshlutdeild í Lundúnum. Munur á fjölda farþega með Iceland Express frá Gatwick flugvelli og fjölda farþega frá Heathrow var aðeins 1.139, Heathrow í vil. Þá vekur athygli að lítill munur er á fjölda farþega með Iceland Express frá Edinborg og fjölda farþega frá Glasgow, en í ágúst flugu 2.043 farþegar með Iceland Express frá Edinborg en 2.653 farþegar flugu frá Glasgow til Keflavíkur. Félagið hóf að fljúga til Edinborgar í vor og því greinilegt þar er eftir töluverðu að slægjast íbúar borgarinnar hafa tekið félaginu vel,“ segir í tilkynningu frá Express.

Þá er árið í ár metár í farþegaflutningum. Fyrstu átta mánuði ársins flugu 359.933 farþegar með félaginu, samanborið við 288.846 á sama tímabili í fyrra. Fjölgunin nemur 24,6%.