Fjárfestingarbankinn Morgan Stanley hagnaðist um 3,7 milljarða dali, eða um 470 milljarða króna, á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Hagnaður bankans jókst um 9% á ársfjórðungnum. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal.

Tekjur bankans jukust einnig um 7% á ársfjórðungnum og námu 14,5 milljörðum dala, eða um 1.850 milljarða króna. Bankinn hefur aldrei hagnast jafn mikið og á árinu 2021, að því er kemur fram í grein WSJ , en hagnaður bankans jókst um 23% milli ára. Eignastýringarsvið bankans jók tekjur sínar um 10% á fjórða ársfjórðungi, og fjárfestingarsvið jók tekjur sínar um tæp 60% milli ára.

Launakostnaður bankans jókst um 18% á milli ára, en bankinn greiddi starfsfólki sínu og stjórnendum 24,6 milljarða dali í launagreiðslur, eða um 3.146 milljarða króna.

Gengi bréfa Morgan Stanley hefur hækkað um rúmlega 2% frá opnun markaða í morgun.