Vísbendingar eru uppi um að metár hafi verið í fjárfestingu í rannsóknar- og þróunarverkefnum hér á landi á síðasta ári. Ýmislegt bendi til þess að markmiði um að fjárfestingin nemi 3% af vergri landsframleiðslu (VLF) hafi verið náð í fyrra. Þetta er meðal niðurstaðna greiningar Samtaka iðnaðarins (SI).

Metár var í fjárfestingum í rannsókn og þróun árið 2019 en það ár nam fjárfestingin 71 milljarði eða 2,35% af VLF. Breyting hins opinbera á efnahagslegum hvötum til fjárfestingar á þessu sviði, endurgreiðsluhlutfall slíkra verkefna var til að mynda hækkað úr 20% í 35%, virðist hafa skilað sér að mati SI. Ýmislegt bendi til þess að 3% markinu hafi veirð náð í fyrra.

„Það var mikill vöxtur í veltu hugverkaiðnaðarins á síðasta ári, þáttur geirans í útflutningi var um 16% og það sem meira er þá voru mörg fyrirtæki að ráða fólk. Þessi þáttur er því að sanna sig sem fjórða stoð hagkerfisins,“ segir Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri SI.

Hugverkaiðnaðurinn búi síðan við þann lúxus að þar sé á ferð ótakmörkuð auðlind, andstætt við aðrar greinar sem eru háðar staðbundnum og takmörkuðum náttúruauðlindum. Gróskan um þessar mundir sé mikil en helsti þröskuldurinn hafi verið að fjármagn hafi skort. Í greiningunni er bent á að þótt framlög í tækniþróunarsjóð hafi aukist um fjórðung frá 2018 þá hafi upphæð umsókna í sjóðinn aukist um tæpan þriðjung. Í fyrra hafi umsóknir verið um 900, sem var 40% aukning milli ára, en aðeins 8% þeirra hlutu styrk.

„Við sýnum því skilning að sem stendur séu umfangsmikil úrræði í gangi til að dempa höggið, á borð við hlutabótaleiðina og auknar atvinnuleysisbætur í gangi, en það er mikilvægt að muna að framlög í þennan málaflokk er góð leið til að skapa störf og verðmæti,“ segir Sigurður.

Ánægjulegt sé því að sjá að sjóðum sem fjárfesta í sprotum sé að fjölga. Sprota- og nýsköpunarsjóður ríkisins, Kría, mun brátt taka til starfa en honum er ætlað að fjárfesta í vísisjóðum sem fjárfesta í sprotum. Áætlað er að hann muni fjárfesta fyrir um átta milljarða króna á næstu fimm árum. Þá bendi ýmislegt til þess að lífeyrissjóðirnir séu áhugasamir um að fjárfesta í þessum geira og fimm sjóðir nú fullfjármagnaðir, umfang þeirra er um 40 milljarðar króna, sem geti hafið starfsemi á árinu.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .