Yfirmaður Gunvor, eins af stærstu olíuverslunarfyrirtækjum heims, greiddi sjálfum sér einn milljarð bandaríkjadala í arð til að geta slitið tengsl sín við rússneskan fyrrverandi viðskiptafélaga sinn sem situr undir refsiaðgerðum Bandaríkjanna.

Kemur þetta fram á sama tíma og olíuverð fer undir 50 dali tunnan vegna væntinga um að fundur OPEC á fimmtudag muni ekki samþykkja takmörkun olíuframleiðslu.

Náin tengsl við Kremlin

Er arðgreiðslan sem hinn sænski Torbjörn Törnqvist greiddi sér, líklega sú stærsta í sögu olíuviðskipta, en hana notaði hann til að greiða Gennady Timchenko, viðskiptafélaga sínum með náin tengsl við stjórnvöld í Kremlín, fyrir hans hlut í Gunvor.

Timchenko sem stofnaði Gunvor með Törnqvist árið 2000 var settur á refsiaðgerðarlista Bandaríkjanna í mars árið 2014 vegna tengsla hans við Pútín Rússlandsforseta.

Vegna refsiaðgerða

Refsiaðgerðarnar voru settar á eftir að Rússland innlimaði Krímskaga. Mikið var í húfi fyrir Gunvor sem hafði á stuttum tíma orðið fjórði stærsti sjálfstæði viðskiptaaðilinn með olíu í heiminum og til að tryggja að refsiaðgerðirnar hefðu ekki áhrif á fyrirtækið seldi Timchenko hlut sinn til Tornqvist daginn áður en refsiaðgerðirnar tóku gildi.

Ekki var gefið upp á þeim tíma hver söluupphæðin var, en með tilkomu milljarðs dala arðgreiðslunnar hefur salan verið greidd að fullu og engar skuldbindingar lengur við hinn fyrrum eigenda, segir í yfirlýsingu Gunvor.