Atvinnuleysi í Þýskalandi nam 12,6% í febrúar en var 11,1% í sama mánuði í fyrra. Þetta þýðir að um 5,2 milljónir manna voru án atvinnu eða 575 þúsund fleiri en á sama tíma í fyrra og er þetta mesta atvinnuleysi í landinu frá stríðslokum. Aukningin er þó í reynd ekki eins mikil og virðist í fyrstu þar sem nýlega var byrjað að telja bótaþega í félagslega kerfinu sem atvinnulausa. Vandi Þýskalands felst fyrst og fremst í ósveigjanlegum vinnumarkaði, hlutfallslega dýru vinnuafli og bágstöddu lífeyriskerfi. Ofan á það bætist svo óhagstæð ytri skilyrði þar sem að olíuverð er hátt og sama er að segja um gengi evrunnar gagnvart dollar segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þar er einnig bent á að um 0,2% samdráttur varð í þýska hagkerfinu á milli þriðja og fjórða ársfjórðungs vegna samdráttar í fjárfestingum fyrirtækja, minni útgjalda ríkisins og minni einkaneyslu. "Reiknað er með að hagvöxtur verði einungis um 1% á árinu 2005 en til samanburðar er reiknað með 3,6% hagvexti í Bandaríkjunum. Evran gaf um 0,5% eftir gagnvart dollara í kjölfar birtingar atvinnuleysistalnanna og þýska hlutabréfavísitalan DAX 30 gaf lítillega eftir. Stýrivextir hafa verið hækkaðir talsvert í Bandaríkjunum að undanförnu en haldið óbreyttum í Evrópu. Stöðnun í Þýskalandi bendir til þess að stýrivextir seðlabanka Evrópu verða hækkaðir minna á næstunni en ella þegar litið er til stærðar og mikilvægis þýska hagkerfisins innan Evrópu," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.