Greiðslukortavelta erlendra ferðamanna var 31,3% meiri í nóvember síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra. Það er mesta aukning í einum mánuði það sem af er þessu ári, ef bornar eru saman veltutölur sömu mánaða síðasta árs. Erlendir ferðamenn greiddu með kortum sínum næstum 6,5 milljarða króna í nóvember en í fyrra var upphæðin næstum 5 milljarðar kr. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar .

Sá útgjaldaliður sem erlendir ferðamenn greiddu mest fyrir með kortum sínum var í ýmsar skipulegar ferðir sem hópum og einstaklingum stendur til boða, eða 1,3 milljarður kr., sem er 70% aukning frá nóvember í fyrra.

Næstmestu vörðu erlendir ferðamenn í hótel og gistiþjónustu, eða 1,2 milljarði kr. sem er 47% hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra. Þá keyptu erlendir ferðamenn fyrir 1,1 milljarð kr. í verslunum hér á landi í síðasta mánuði sem er 19% aukning frá því í fyrra.

Hver erlendur ferðamaður greiddi að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir um 106 þús. kr. í nóvember síðastliðnum sem er nánast sama upphæð og í nóvember í fyrra. Með því að leiðrétta þessa upphæð fyrir verðhækkunum síðustu 12 mánaða var raunveltan á hvern einstakling 0,8% minni en í fyrra.