*

þriðjudagur, 20. ágúst 2019
Innlent 17. ágúst 2018 14:00

Metaukning í fjölda gistinátta

Aukningin milli ára nemur 72,7% sem er mesta hlutfallslega aukning í gistinóttum Íslendinga í gistináttagagnagrunni Hagstofunnar.

Ritstjórn
Gistinætur Íslendinga á hótelum innanlands námu tæplega 42 þúsundum í júní síðastliðnum og fjölgaði þeim um 18 þúsund frá fyrri mánuði.
Haraldur Guðjónsson

Gistinætur Íslendinga á hótelum innanlands námu tæplega 42 þúsundum í júní síðastliðnum. Til samanburðar nam gistináttafjöldinn rúmum 24 þúsundum í sama mánuði í fyrra. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans

Aukningin milli ára nemur 72,7% sem er mesta hlutfallslega aukning í gistinóttum Íslendinga í gistináttagagnagrunni Hagstofunnar sem nær aftur til ársins 1997.

Fyrra metið var í október 2003 þegar aukningin nam 40,7%. Sé litið yfir aukningu á einstökum svæðum sést að hún er alls staðar mikil og liggur á bilinu 55-140%.

Mesta aukningin var á Suðurnesjum og minnst á Austurlandi. Aukningin á Suðurnesjum sker sig nokkuð frá öðrum svæðum. Hana má eflaust rekja til töluverðrar aukningar í ferðalögum Íslendinga til útlanda sem var 14,4% í júní á 12 mánaða grundvelli.

Aukningin á höfuðborgarsvæðinu var 70,7% og þarf að leita allt aftur til septembermánaðar 2007 til að finna meiri aukningu á því svæði.

Stikkorð: Landsbankinn Hagsjá