Metávöxtun var hjá Lífeyrissjóði Vestmannaeyja á síðasta ári. Stjórn sjóðsins hefur samþykkt að hækka áunnin réttindi sjóðfélaga og lífeyrisþega um 10% frá 1. janúar 2007.

Hrein eign umfram áunnar skuldbindingar var 23,5% í árslok, eða 10,8% umfram heildarskuldbindingar. Eftir þá miklu hækkun réttinda sem samþykkt hefur verið, verður hrein eign sjóðsins um 4,3% umfram heildarskuldbindingar segir í frétt á heimasíðu Landssambands lífeyrissjóða..


Samtryggingardeild sjóðsins skilaði 20,57% nafnávöxtun árið 2006, Hrein eign var 21,6 milljarðar í árslok og hækkaði um 17,7% á árinu.

Nafnávöxtun samtryggingardeildar sjóðsins var 20,57% og hrein raunávöxtun 12,74%.
Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 5 ára er 8,90% og síðustu 10 ára 6,87%.


Nafnávöxtun séreignadeildar var 14,6% og hrein raunávöxtun 7,2%. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar deildarinnar síðustu 5 ár er 9,9% og 8,3% frá upphafi hennar 1999.
Allar eignir séreignadeildar er gerðar upp á markaðsverði.


Í árslok voru verðbréf með föstum tekjum (skuldabréf) 51,9% af fjárfestingum sjóðsins, verðbréf með breytilegum tekjum (hlutabréf og sjóðir) 48,1%. Eignir í erlendum gjaldmiðlum námu 34,2%. Innlend hlutabréf voru 13,8% af fjárfestingum og skiluðu 14,1% raunávöxtun, en erlend hlutabréf og verðbréfasjóðir voru 32,2% og báru 28,9% raunávöxtun.


Hin góða raunávöxtun sjóðsins byggist því að mestu á hækkun innlendra og erlendra hlutabréfa sjóðsins, sem ásamt talsverðri veikingu íslensku krónunnar skiluðu sjóðnum metafkomu síðastliðið ár.