Fjöldi starfandi í Bretlandi féll um 220 þúsund á öðrum ársfjórðungi og hefur ekki fallið hraðar í yfir áratug. Ungir, aldnir og verkamenn hafa komið verst út úr heimsfaraldrinum, samkvæmt hagstofu Bretlands, sem gaf út tölurnar. BBC segir frá .

Talsmaður hagstofunnar sagði lýðfræðina áhyggjuefni, þar sem viðkomandi hópar eigi almennt erfiðara með að finna sér starf að nýju en aðrir. Þá kom fram að tölurnar ná ekki yfir þær milljónir manna sem sendir hafa verið í launalaust leyfi.

Þrátt fyrir metfækkun starfa mælist atvinnuleysi aðeins 3,9%, og hefur ekki breyst að ráði milli ársfjórðunga eða ára, sem gefur til kynna að svipaður fjöldi hafi yfirgefið vinnumarkaðinn alfarið og sé ekki í atvinnuleit.

Greiningaraðilar hafa þó varað við því að reglur um sértækt launalaust leyfi (e. furlough) hafi aðeins frestað miklu yfirvofandi atvinnuleysi, sem skella muni á þegar tímabundnar reglurnar detta úr gildi.