Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða, afhenti í dag Margréti Völu Marteinsdóttur forstöðukonu Jafningjaseturs Reykjadals, 21.622.502 kr., sem er afrakstur Takk dagsins, 25. nóvember síðastliðinn. Dagurinn var haldinn í sjöunda sinn. Afhending söfnunarinnar fór fram í höfuðstöðvum Fossa markaða við Fríkirkjuveg 3 í Reykjavík kl. 11 í morgun.

Á Takk deginum renna allar þóknanatekjur vegna viðskipta dagsins til góðs málefnis. Auk Fossa markaða taka Kauphöllin (Nasdaq Iceland) og uppgjörsfyrirtækið T Plús þátt í deginum með því að fella niður öll gjöld af viðskiptum Fossa innan dagsins og renna þau í staðinn til söfnunarinnar. Þá gefur auglýsingastofan TVIST vinnu sína sem tengist deginum.

„Við erum í skýjunum yfir þessu stórkostlega framlagi sem til stuðnings við nýhafinni starfsemi Jafningjaseturs Reykjadals. Við fórum af stað í október í tímabundnu húsnæði í Menntasetrinu við Lækinn í Hafnarfirði, en viðtökurnar og þátttakan verið slík að strax varð ljóst að finna þyrfti Jafningjasetrinu varanlegt húsnæði við hæfi. Með þessum styrk er hægt að setja fullan kraft í þá vinnu," segir Margrét Vala Marteinsdóttir, forstöðukona Reykjadals. „Það hefur verið afskaplega ánægjulegt að sjá góðar viðtökur við Jafningjasetrinu þar sem börn og ungmenni með fötlun eða sérþarfir hafa með stuðningi getað notið félagslífs og samveru líkt og önnur börn. Við hlökkum mjög til þess að sjá þessa starfsemi dafna áfram."

Bein framlög bættust við

„Viðskiptavinir Fossa gerðu okkur mögulegt að afhenda Jafningjasetri Reykjadals þennan styrk, en þátttakan í ár sló öll fyrri met. Þar vega líka þungt bein framlög inn á reikning söfnunarinnar," segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa. Í fyrra söfnuðust 12,6 milljónir króna sem runnu til Geðhjálpar.

Haraldur segir stórkostlegt hversu vel Takk dagurinn hafi náð að festa sig í sessi. Samkomutakmarkanir vegna heimsfaraldurs Covid-19 urðu til þess að deginum var fagnað með rafrænum hætti í ár, líkt og gert var í fyrra. „Og það gekk allt mjög vel og sérlega skemmtilegt hvað þátttakan var mikil, þar sem allir lögðust á eitt, við, viðskiptavinir og samstarfsaðilar," segir Haraldur.

Mikil ánægja með valið

Líkt og áður er það starfsfólk Fossa sem velur það málefni sem fær styrk Takk dagsins og segir Haraldur mikla ánægju með valið nú. „Öll erum við félagsverur og öll samskipti og samvera skipta miklu í lífi fólks. Aðgerðir vegna Covid-19 gera fólki þetta enn ljósara og því er afar ánægjulegt að geta stuðlað að því að mikilvæg starfsemi Jafningjaseturs Reykjadals fái varanlegt húsnæði þar sem viðkvæmur hópur fær stuðning til félagslífs og jákvæðra samskipta," segir Haraldur.