*

fimmtudagur, 21. október 2021
Erlent 5. nóvember 2020 19:10

Metfjöldi áskrifenda hjá New York Times

Áskrifendur að New York Times eru orðnir sjö milljónir. Heildarfjöldi netáskrifenda er um sex milljónir. Auglýsingatekjur dragast saman.

Ritstjórn
Höfuðstöðvar New York Times.
Gunnhildur Lind Photography

Á þessu ári er líklegt að tekjur New York Times vegna netáskrifenda verði í fyrsta sinn meiri en tekjur frá áskrifendum á prentútgáfu New York Times. Fréttamiðilinn hefur aldrei haft fleiri áskrifendur sem urðu sjö milljónir í síðustu viku.

New York Times hóf að taka gjald fyrir netfréttir sínar árið 2011, sem hefur síðan orðið æ stærri hluti af rekstri fyrirtækisins. Heildartekjur á þriðja ársfjórðungi 2020 námu 427 milljónum dollara, andvirði um 60 milljarða króna. Tekjur vegna netáskrifenda jukust um þriðjung milli ára, í um 155 milljónir dollara. Tekjur vegna prentútgáfu New York Times drógust saman um 3,8% í 146 milljónir dollara og auglýsingatekjur drógust saman um 30% í 79 milljónir. 

Þrátt fyrir að netáskrifendum fjölgar hafa tekjur félagsins vegna auglýsinga á netinu dregist saman. Aðlagaður rekstrarhagnaður (EBIT) á þriðja ársfjórðungi jókst um 28% milli ára í um 57 milljónir dollara. Afkoma var jákvæð um 33,6 milljónir dollara.

Sagt er frá því á vef New York Times að á forsetatíð Donald Trumps hefur fjöldi áskrifenda aukist jafnt of þétt. Fyrirtækið hefur sett sér markmið um tíu milljón áskrifendur fyrir árið 2025. Á þriðja ársfjórðungi 2020 jukust netáskrifendur félagsins um tæplega 400 þúsund. 

Heildarfjöldi netáskrifenda er um sex milljónir. Þar af eru 4,7 milljónir sem greiða fyrir fréttir en um 1,3 milljónir sem greiða fyrir aðgang að öðru efni líkt og krossgátum. Um 830 þúsund manns greiða fyrir prentútgáfu New York Times, færri en fyrir ári síðan.