Talningar Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli sýna að ferðamönnum til landsins heldur áfram að fjölga og hafa aldrei verið fleiri í einum mánuði en í júlí síðastliðnum. Þá fóru tæplega 67 þúsund erlendir ferðamenn um Leifsstöð og fjölgar um tæplega 1.700 manns á milli ára eða 2,6% að því er kemur fram í fréttabréfi SAF.

Sé litið á helstu markaðssvæði þá stendur fjöldi Bandaríkjamanna og Breta nánast í stað á milli ára en fjölgun er frá Norðurlöndunum og Þýskalandi. Norðurlandabúar eru fjölmennastir, um 15.500 talsins, tæplega 9.000 frá Þýskalandi, 8.700 frá Bandaríkjunum og 8.000 frá Bretlandi.

Frá áramótum og til júlíloka eru erlendir ferðamenn sem fóru um Leifsstöð 216 þúsund talsins og hefur fjölgað um 6,3% miðað við sama tíma í fyrra.

Undanfarin ár hafa ferðamenn í ágúst verið fleiri en í júlí og því ekki ósennilegt að þá verði nýtt met sett í fjölda gesta í einum mánuði. Jafnframt er vert að benda á að inni í þessum tölum eru ekki farþegar sem fara um aðra millilandaflugvelli hérlendis og þá eru ótaldir þeir ferðamenn sem koma með Norrænu og farþegar skemmtiferðaskipa sem hafa hér viðdvöl segir í fréttabréfinu.