Aldrei áður hafa fleiri erlendir ríkisborgarar verið á íslenskum vinnumarkaði eins og nú en þeir skipa nú 10,3% af vinnumarkaðnum.

Eru 2.000 fleiri erlendir starfsmenn á landinu nú en þegar mest var árið 2008 að því er segir í Fréttablaðinu í dag.

Voru 20.273 erlendir starfsmenn á landinu í lok ársins 2016 samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar, en í síðustu efnahagsuppsveiflu náði fjöldinn hámarki árið 2008 með 18.357 erlendum starfsmönnum.

Þeir voru hins vegar rúmlega 16 þúsund árið áður, en árið 2006 ríflega 12 þúsund, en á þessum tíma stóð meðal annars yfir bygging Kárahnjúkavirkjunar.

„Það væri heppilegra fyrir okkur ef þetta væri jafnari uppbygging í byggingariðnaði,“ seigir Karl Sigurðsson, sem er sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun.

„Við erum með sveiflukennt hagkerfi sem er fyrst og fremst ástæðan fyrir því að við fáum svona mikinn innflutning á erlendu vinnuafli með reglulegu millibili.“

Hlutfall erlendra starfsmanna varð lægst hér á landi í kjölfar hrunsins árið 2012 þegar það varð 82,%, en þá voru þeir 14.683.

„Það fóru mun færri af landi brott en reiknað var með,“ segir Karl.„Þessi sprenging sem er að verða núna er því að koma ofan á það sem var fyrir.“

Í lok síðasta árs voru 917 erlendir ríkisborgarar atvinnulausir hér á landi, eða 21,2% allra sem voru atvinnulausir.