Nýliðið sumar sló öll fyrri met í farþegafjölda á Keflavíkurflugvelli en 9% aukning varð frá fyrra ári á háannatímanum í júní, júlí og ágúst þegar um ein milljón farþegar lögðu leið sína um flugvöllinn.

Þetta kemur fram á vef Keflavíkurflugvallar. Þar kemur fram að farþegafjöldi heldur áfram að aukast með 18,9% aukningu í september og spáð er um 19,8% aukningu til áramóta. Gangi sú spá eftir verður yfirstandandi ár stærsta ferðaár á Keflavíkurflugvelli með um 2,4 milljón flugfarþega .

Þá er rifjað upp það sem áður hefur komið fram að millilandaflugfélögin hafa tilkynnt um verulega aukið sætaframboð í vetur og næsta sumar og hefur Icelandair boðað 15% heildarfarþegaaukningu á næsta ári. Iceland Express hefur boðað 30% aukningu á sætaframboði á næsta ári og Wow Air hefur tilkynnt um tvöföldun sætaframboðs með aukinni tíðni og nýjum áfangastöðum á næsta ári.

Þá hyggjast Norwegian Air og easyJet fljúga til Íslands í vetur og hefur easyJet boðað fjölgun fluga í vetur og fleiri áfangastaði í sumaráætlun. SAS heldur sem fyrr uppi áætlunarflugi til Osló allt árið.

„Isavia hefur mætt þessari miklu farþegaaukningu með margvíslegum hagræðingaraðgerðum í og við flugstöð Leifs Eiríkssonar. M.a. var sjálfsinnritunarstöðvum fjölgað verulega og ráðist í breytingar á afgreiðslusvæðum og biðsvæðum farþega og bifreiðastæðum,“ segir á vef Keflavíkurflugvallar.