Á árinu 2020 barst Vinnumálastofnun 141 tilkynning um hópuppsagnir, þar sem 8.789 manns var sagt upp störfum. Þetta er mesti fjöldi hópuppsagna sem tilkynntur hefur verið til Vinnumálastofnunar á einu ári, að því er kemur fram í frétt á vef stofnunarinnar .

Afleiðingar kórónuveirufaraldursins á efnahag íslensku þjóðarinnar hefur vart farið fram hjá nokkrum manni. Hefur faraldurinn orðið þess valdandi að skollið hefur á djúp kreppa og samdráttur ekki verið meiri í um heila öld hér á landi. Sú atvinnugrein sem hefur orðið hvað verst úti er ferðaþjónustan og má ætla að væn holskefla hópuppsagnanna komi úr þeim geira.

Í frétt Vinnumálastofnunar kemur jafnframt fram að rrjár tilkynningar um hópuppsagnir hafi borist Vinnumálastofnun í desember 2020 þar sem 137 starfsmönnum var sagt upp störfum. 94 í menningar, íþrótta og tómstundastarfsemi, 32 í iðnaði og 11 í flutningastarfsemi. Uppsagnirnar koma allar til framkvæmda í apríl 2021.

Hópuppsögn líkamsræktarstöðvarinnar World Class stendur nær alfarið undir þeim 94 sem sagt var upp í menningar, íþrótta og tómstundastarfsemi. Þeim ellefu sem sagt var upp í flutningastarfsemi eru flugmenn fraktflugfélagsins Bláfugls .