Í síðustu viku sóttu 3,3 milljónir Bandaríkjamanna um atvinnuleysisbætur, sem er hátt í fjórfalt á við gamla metið á einni viku frá því skráning hófst fyrir hálfri öld, en 695 þúsund sóttu um bætur á einni viku árið 1982. Fyrir aðeins þremur vikum sóttu aðeins um 200 þúsund um á viku.

Fjárfestingabankinn Goldman Sachs hafði um helgina spáð 2,25 milljónum umsókna út frá bráðabirgðatölum 30 fylkja, og því ljóst að tölurnar hafa komið mörgum í opna skjöldu, en búist er við að tölur næstu viku verði sambærilegar.

Umfjöllun New York Times bendir þar að auki á að umsóknafjöldi vanmeti heildarfjölda nýlega atvinnulausra, þar sem ekki eigi allir sem missa vinnuna rétt á bótum, auk þess sem sjálfstætt starfandi geti misst svo til öll verkefni og þar með tekjur án þess að missa samkvæmt skilgreiningu vinnuna.

Ofan á það höfðu vinnumálastofnanir víða um land ekki við að taka við umsóknum og því margir til viðbótar sem ekki komust að.

Steve Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í samtali við fréttamiðilinn CNBC að tölurnar hefðu enga þýðingu fyrir yfirstandandi og yfirvofandi efnahagskrísu.

Þrátt fyrir margfalt metið hafa verðbréfamarkaðir risið vestanhafs í dag í kjölfar samþykkis þingsins á 2 þúsund milljarð dala aðgerðapakka til að bregðast við efnahagsáhrifum heimsfaraldursins.