Í mars voru 1.300 kaupsamningar gefnir út sem er metfjöldi seldra íbúða í einum mánuði og þarf að leita aftur til ársins 2007 til að finna sambærilegar tölur en þá voru kaupsamningar um 800. Jafnframt aldrei fleiri kaupsamningar verið gerðir á tólf mánaða tímabili frá upphafi mælinga, árið 2002. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fyrir maí.

Mikil gróska hefur verið á fasteignamarkaði undanfarna mánuði og fjallaði Viðskiptablaðið nýverið um að fasteignaverð hafi hækkað um 3,3% í mars sem er mesta hækkun frá 2007. Þá seldust um þriðjungur íbúða á höfuðborgarsvæðinu yfir ásettu verði sé miðað við þriggja mánaða meðaltal.

Meðalsölutími íbúða hefur aldrei verið styttri á höfuðborgarsvæðinu en hann var 38 dagar á höfuðborgarsvæðinu í mars en sölutími á landsbyggðinni helst nokkuð jafn og er um 74 dagar. Þrátt fyrir gífurlega eftirspurn eftir íbúðum helst framboðið stöðugt og fjöldi nýbyggðra íbúða dregst saman.

Þá vekur athygli að á undanförnu tólf mánaða tímabili hefur leiguverð á höfuðborgarsvæðinu lækkað um 3,3%.