Í sumar er von á 19 skemmtiferðaskipum til Grundarfjarðar sem er metfjöldi. Það stefnir þó í að það met verði hratt slegið, en nú þegar hafa borist 32 bókanir fyrir næsta sumar. Þetta staðfestir Hafsteinn Garðarsson, hafnarstjóri í Grundarfirði. Skipin stoppa öll yfir daginn í sex til tólf tíma. Farið er með farþegana í kringum nesið, í kringum Snæfellsjökul.

„Að meðaltali koma 220 upp í 800-900 manns með hverju skipi,“ segir Hafsteinn. Því er um gríðarlegan ferðamannafjölda að ræða. Næsta miðvikudag mun það einnig gerast í fyrsta sinn að þrjú skemmtiferðaskip verða samtímis í Grundarfirði. Aðspurður um pláss fyrir öll skipin í höfninni segir Hafsteinn að um minni skip sé að ræða og því ætti að vera nóg pláss.