*

laugardagur, 24. júlí 2021
Innlent 17. maí 2021 14:11

Metfjöldi umsókna hjá Advania

Þrefalt fleiri sóttu um sumarstörf hjá Advania en í fyrra, eða um 800 manns. Fleiri konur sækja um störf í upplýsingatækni en áður.

Ritstjórn
Sigrún Ósk, mannauðsstjóri Advania
Aðsend mynd

Um 800 manns sóttu um sumarstörf hjá Advania í ár og eru það um þrefalt fleiri en sóttu um í fyrra. Þá sækja fleiri konur um störf í upplýsingatækni en áður hefur verið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Advania.

„Áhuginn á upplýsingatækni er sífellt að aukast og fjölbreyttari hópur sækist nú eftir störfum í greininni. Konur hafa ávallt verið í minnihluta í upplýsingatæknigeiranum eða um 25-30%. Nú sjáum við hraða þróun í rétta átt. Um 40-50% umsækjenda um stöður hjá Advania eru konur og á síðasta ári var helmingur ráðinna starfsmanna konur. Umsækjendur og nýtt starfsfólk er á öllum aldri og því má sjá merki um breytingar. Mér heyrist þessi þróun eiga við víðar en aðeins á okkar vinnustað," segir Sigrún Ósk Jakobsdóttir, mannauðsstjóri Advania í tilkynningunni.

Ráðist hefur verið í ýmis átaksverkefni til að jafna kynjahlutföll þeirra sem útskrifast úr upplýsingatæknifögum. Nú virðast þau  vera farin að bera ávöxt.

„Konur eru aðeins 20-25% útskrifaðra úr þessum fögum. Við höfum því ráðist í ýmis átaksverkefni til að stuðla að fjölbreyttari aðsókn í nám sem tengist upplýsingatækni. Til dæmis höfum við með ýmsum aðgerðum vakið athygli kvenna á starfi og menntun í kerfisstjórnun og veitt styrk til náms í faginu. Átaksverkefnið skilaði aukinni aðsókn í nám í kerfisstjórnun og það sýnir okkur að með réttum úrræðum má hafa veruleg áhrif á stöðuna. Kynjahlutföllum í heilli starfsgrein verður auðvitað ekki breytt á einni nóttu."